3.5.2008 | 22:47
Fernur og framhaldslíf
Stundum er sagt að ekki sé gáfulegt að spara aurinn en henda krónunni. Nú á tímum endurvinnslu og endurnýtingu pirrar það mig þegar verið er að agnúast út í almenning fyrir að nenna ekki að skila ekki til endurvinnslu öllum mjólkurfernum sem til falla á heimilum landsins.
Það er nefnilega svo að í stórmörkuðum er töluverðu af útrunni mjólk hellt niður, og haldið þið að þá sé farið að skola, þurrka og endurvinna? Ó nei, Ó nei. Þarna er þó besta tækifærið, mikið magn, á einum stað, ein ferð, minni mengun. Það er reyndar svo að fáir, jafnvel fæstir, ef þá nokkrir, stjórnendur stórra matvörubúða, sjá hag í að skila yfir höfuð nokkru til endurvinnslu. Jafnvel þegar gosdrykkjum er eytt, er enginn sem nennir að hirða umbúðirnar þó svo að í boð sé skilagjald. Ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að um 3 tonn af rusli falli til í hverri viku í stórmarkaði. Af því er nokkuð mikið magn af hreinum pappakössum sem auðvelt er að endurnýta bara ef kostnaðurinn við það væri lægri en við venjulega förgun.
Á meðan stórum fyrirtækjum er ekki gert að flokka og skila endurvinnanlegum umbúðum hef ég ekki samviskubit yfir þessum tveimur til fjórum fernum sem falla til í viku hverri á mínu heimili. Held samt ótrauð áfram að flokka og skila, flöskum, dósum og dagblöðum. Já og ekki má gleyma fatnaði í Rauðakrossgáminn.
PS. Fróðlegt væri að vita hvort mjólkurframleiðslufyrirtækin endurvinni þær fernur sem falla til á þeirra bæjum!
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.