Volga og lada, fyrirtaks bílar

Það rifjast ýmislegt skrítið upp fyrir manni þessa dagana þegar talið berst að Rússum.

Ég sé alltaf fyrir mér dökkgræna volgu, glænýja, úr kassanum á nýsteyptu bílastæðinu við Norðurgötu 56 á Akureyri. Þetta var fyrsti nýji bíllinn sem mamma og pabbi eignuðust og ef ég man rétt fyrsti bíllinn sem ég keyrði. Mamma og pabbi voru virkilega stolt af honum og ég man að mér fannst þetta lang fallegasti liturinn á þessum bílum sem voru allir mjög dökkir og svona smá klassi yfir þeim.

Ég var auðvitað ekki komin með prófið en pabba fannst samt allt í lagi að ég fengi að keyra nokkra metra á beinum vegi sem liggur inn í Ásbyrgi. Þessi bíll reyndist okkur vel og það æxlaðist svo að þegar bíllinn var seldur var það ég sem sá um að taka við greiðslunni þar sem mamma og pabbi voru stödd í Reykjavík. Reyndar hjálpaði Hermann frændi til en ég var mjög ánægð með að við fengum meira fyrir hann en áætlað var. Mynnir endilega að Volgan hafi verið seld á 1.1 milljón gamlar krónur. 

Mamma var svo ánægð með rússneska bílinn að næst var keypt appelsínugul lada 1600 og þann bíl keyrði ég fyrst eftir að ég fékk prófið, mamma var dugleg að lána mér hann í skólann og á rúntinn.

Það var alveg merkilegt hvað bíllinn var góður í snjó en hann var náttúrulega afturhjóladrifinn svo mamma setti bara sandpoka í skottið  til að þyngja hann nú eða þá að Stjáni frændi var látinn sitja aftur í, ef þurfti að fara upp brekku í hálku. Alltaf var líka hægt að sækja smá sand í skottið og setja framan og aftan við afturhjólin þegar þurfti að komast upp Þórunnarstrætið í fljúgandi hálku.

Síðar hef ég líka keyrt ótrúlega endingaágóðann lada sport. Bíllinn seldur í fullu fjöri eftir að km mælirinn var komin svo langt á annan hringinn að kaupandanum datt ekki í hug annað en bíllinn væri enn á fyrsta hringnum. Galdurinn við þessa bíla var að keyra þá skynsamlega (á löglegum hraða) og smyrja þá við hvert tækifæri.

Þessa bíla var kannski ekki hægt að keyra mjög hratt, minnir samt að ég hafi komið sportaranum í 110 án teljandi vandræða. Er það bara ekki akkúrat meir en nóg í landi þar sem hámarkshraðinn er hvergi meiri en 90?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Kíktu á þetta: http://gorgeir.blog.is/blog/gorgeir/entry/664186/

Hjálmtýr V Heiðdal, 11.10.2008 kl. 10:02

2 identicon

Jæja systir og ég sem hélt að þú hefðir aldrei keyrt bíl yfir 75km hraða  

Mínar minningar eru góðar af Volgunni ég var líklega 5-6 ára þegar hún var keypt ,ég lá oft aftur á gluggakistunni og þurfti því ekki að sitja á milli ykkar og sjá ekkert út þar sem ég var yngst, þess má geta að það voru engin bílbelti í henni svona ef einhver af yngri kynslóðinni er að lesa þetta. Þetta var algjör "drossía"

kveðja Laufey

Laufey Hlín (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 20:13

3 Smámynd: ÞJÓÐARSÁLIN

Ferðaðist á rússajeppum í æsku og eignaðist seinna Lada 1200 og Lada Sport. Hann var fjögurra gíra og ef maður keyrði hann hraðar en 80 þá heyrðist ekki mannsins mál. Svo tók maður því sem hverju öðru hundsbiti að miðstöðin bilaði í öllum þessum bílum.   En Lada Sport bar mig léttilega hálfa leið á Heklu.  Nú væri við hæfi að setja upp á Íslandi Lada-minjasafnið til að gleðja Rússa.

ÞJÓÐARSÁLIN, 23.10.2008 kl. 11:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband