Skemmtilegur dagur, Öskudagur

Öskudagurinn er einn af mínum uppáhalds dögum,InLove jafnvel þó ég sé orðin of gömul til syngja og safna nammi. Nú er ég svo heppin að á mínum vinnustað er tekið vel á móti krökkum sem vilja gleðja okkur með söng og skemmtilegum búningum. Það er alveg dásamlegt að sjá krakkana streyma inn á vinnustaði hinna fullorðnu og vera með í að skemmta sér og öðrum á þessum degi. 

Öskudagurinn vekur alltaf upp svo skemmtilegar minningar frá því ég var lítil stelpa á Akureyri. Var alltaf í stóru (ekta) öskudagsliði sem fór um alla eyrina og miðbæinn, söng og fékk nammi að launum.

Ég man enn þegar ég fékk að vera í öskudagsliði í fyrsta skiptið.  Sennilega hef ég verið 6 ára og Svanhildur frænka sem var 2 árum eldri leyfði mér að vera með í sínu liði. Talið var samt að ég hefði ekkert að gera á fætur jafn snemma og eldri krakkarnir í liðinu. Þau hafa líklega þurft að vakna upp úr kl. 6 til að  klæða sig og mála og vera svo mætt á fyrsta staðinn kl. 7. Við þurftum líka að labba á milli staða í myrkri og misjöfnum veðrum en vorum ekki keyrð eins og nú tíðkast. Ég var þó vakin um fyrir kl. 8 og fékk að fara með liðinu í Sana og fá fulla ,,glerflösku'' af gosi. Þaðan var farið í Kaffibrennsluna og Lindu en þar fengum við alltaf vænan slatta af konfekti.

 Á Eyrinni voru líka fyrirtæki eins og Slippurinn, Niðursuðuverksmiðjan, Sláturhúsið og Útgerðafélagið sem opnuðu snemma þannig að tíminn þar til búðirnar opnuðu var nýttur til hins ýtrasta.  Leiðin lá síðan í suður og man ég að við fórum í kjörbúðina í Ránargötunni, búð í Eiðsvallargötunni (búin að gleyma nafninu) og smjörlíkisgerðina Akra en þar voru framleiddar Akrakaramellur. Í Strandgötunni voru tvær kjörbúðir, ein í hvítu húsi (þar keypti Mamma stundum kjötfars því alltaf var þar vigtað kúnnanum í hag) og þar fengum við gotterí.  Í hinni, Kaupfélagi verkamanna var okkur sagt að við mættum syngja en við fengjum ekkert fyrir. AngryStundum sungum við en stundum ekki.Halo Devil

Eftirvæntingin vegna Öskudagsins var alltaf mikil, spáð var í búninga og mætt á söngæfingar í hinum ýmsu forstofum og þvottahúsum, svona til að verða okkur ekki til skammar á þessum merkilega degi. Lögin sem við sungum vor sum sungin í apótekinu mínu gær eins og ,, Nú er frost á Fróni" og ,,Gamli Nói" en ekki heyrði ég ,,Fyrr var oft í koti kátt eða Kokkurinn við kabyssuna". Hins vegar heyrðust íslenskar öskudagsútgáfur af Abba-lögum, eins og MamMía og Money, money sem var breytti í nammi, nammi.

Það var reyndar stór munur á búningum krakkana gær og undanfarin ár. Mun fleiri voru í búningum líkum þeim sem ég og systur mínar notuðum.  Hugmyndaflugið og mamma nýtt til hins ýtrasta. Margir krakkar sögðum mér að búningarnir væru heimatilbúnir og að mömmur þeirra hefðu hjálpað til við að fullkomna verkið. Mikið meira var um frumlega andlitsmálnun en grímur, sem hafa verið áberandi undanfarin ár. 

Ég man eftir að hafa verið í stórum bréfpoka úr kaffibrennslunni með mynd af gulum bragakaffipoka á, gamalli kápu af mömmu, ruslapoka og svo rauðri heimasaumaðri skikkju með álímdum spilum. Mamma reddaði þessu með okkur og einhverju sinni bjó hún meira að segja til hárkollu úr lopa handa Ellu. Eftir að ég fór að geta saumað sjálf gerði ég meðal annars trúðabúning á Ólöfu og nátthúfu á Laufeyju. Hún hafði þá fengið gömul náttföt af pabba (mjög falleg reyndar) og arkaði um bæinn í þeim með málað yfirvaraskegg og  forláta gamaldags vekjaraklukku. Þetta var svona klukka með tvær bjöllu og hringdi með þvílíkum látum að nágrannarnir hljóta alltaf að hafa vaknað um leið og fjölskyldan í Norðurgötu 56. SleepingW00t

Annað sem ég tek eftir að hefur breyst er að núna eru börnin að borða nammið sitt jafnóðum og sum koma varla með neitt heim. Í öll þau ár sem ég tók þátt í þessarri nammi söfnun, man ég ekki betur en allt hafi farið beint í pokann (svona hveiti-taupoka eða þá heimasaumaðan jólasveinapoka). Þegar heim var komið var mamma látin skipta öllu jafnt í skálar og súpudiska sem síðan voru geymdir inni í búri, en það gat tekið upp undir viku að klára öll ósköpin.

En allt er breytingum háð, og þeir krakkar sem eru að taka þátt í öskudeginum í dag munu vonandi eiga jafn skemmtilegar minningar og við sem eldri erum, þó svo þær séu eitthvað aðeins öðruvísi.

Takk, krakkar fyrir sönginn og fyrir að koma okkur til að hlæja í dagsins önn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband